En ef netfangið mitt hefur breyst?
Leiðbeiningarnar hér fyrir ofan (til að
segja upp áskrift) duga ekki ef þú notar venjulega annað netfang til að
senda bréf en þú skráðir upphaflega á póstlistann.
Ef þetta er staðan, þá þarftu að gefa áskriftarkerfinu meiri upplýsingar
til að losna af listanum. Þetta gerirðu með því að bæta netfanginu sem þú
skráðir á listann aftan við orðið afpanta. Það er að segja, ef
netfangið sem þú skráðir upphaflega var net@fang.is, þá liti beiðnin
svona út:
afpanta net@fang.is
Ferlið er að öðru leyti alveg eins.
[ yfirlit ]
Hvernig stofna ég póstlista? Hvað kostar það?
Til þess að stofna nýjan póstlista hjá molar.is
þarf einungis að fylla út þar til
gert eyðublað. Nokkuð ýtarlegar leiðbeiningar eru á eyðublaðinu sjálfu,
sem við mælum eindregið með að séu allar lesnar.
Það er ráðlegt að athuga hvort þegar sé til
listi um umfjöllunarefnið, og lesa allar
leiðbeiningarnar um umsjón póstlista
áður en nýr listi er stofnaður.
Að stofna nýjan póstlista er ókeypis. Stofnendur þurfa samt að
hafa í huga að þetta breytist þegar sala
auglýsinga hefst hjá
molar.is. Þá munu menn geta valið milli
áframhaldandi ókeypis reksturs (með auglýsingum) og reksturs gegn gjaldi
(án auglýsinga).
[ yfirlit ]
Reglur
Geta menn stofnað lista um hvað sem er?
Hvað um barnaklám eða nasisma?
Það verður engin ritskoðun á molar.is. Það er
málfrelsi á Íslandi og menn mega ræða hvað sem er.
Það þarf vonandi ekki að taka það fram að það er bannað að nota kerfið
til að gera ólöglega hluti - notendur Netsins þurfa að lúta lögum þess lands
sem þeir eru staddir í hverju sinni. Sér í lagi má ekki nota kerfið til að
dreifa ólöglegu efni eða til ærumeiðinga.
Öll samskipti sem fara gegnum molar.is eru skráð í söfn
viðkomandi póstlista. Stofnendur lista geta valið hvort viðkomandi safn sé
opið almenningi eða ekki, en ef lögregla gerir kröfu um að fá afrit af
safninu þá munu umsjónarmenn þjónustunnar að sjálfsögðu verða við því.
Molar.is getur því aldrei orðið öruggt verkfæri
glæpamanna.
[ yfirlit ]
Netkurteisi
Af hverju á ég ekki að tala um XYZ á lista ABC?
Hver póstlisti hefur afmarkað umræðuefni. Það þykir lágmarkskurteisi að
halda sig við það efni þegar póstlistanum eru send bréf - með bréfi þínu
nærð þú athygli margra aðila, sem flestir hafa nóg annað að gera en að lesa
skrif þín. Það er alveg viðbúið að það fari í taugarnar á fólki ef þú
truflar það með einhverju sem það hefur ekki áhuga á.
Rökin fyrir að halda sig við efnið á póstlistum eru nákvæmlega þau sömu
og rökin fyrir að senda ekki
annarskonar
ruslpóst.
Athugið að þetta gildir sér í lagi um viðbrögð við óviðeigandi
bréfum. Það er fátt meira pirrandi en að sjá annars ágætan póstlista
leysast upp í skammir og nöldur, þar sem hver maðurinn á fætur öðrum skammar
þann sem skrifaði á undan fyrir að fara út fyrir efnið með því að skamma
einhvern fyrir að fara út fyrir efnið... það er fullkomnlega eðlilegt að
skammast ef einhver misnotar póstlista, en gerðu það með því að hafa samband
við manninn beint, ekki nota póstlistann til þess. Og vinsamlegast hafðu
hugfast að misnotkun stafar mun oftar af fáfræði en illmennsku.
[ yfirlit ]
Umsjón póstlista
Hvernig á að velja nafn (netfang) fyrir nýjan póstlista?
Eftirfarandi atriði er vert að hafa í huga þegar nafn á nýjum póstlista
er valið:
- Er nafnið lýsandi fyrir umræðuefni listans?
- Er auðvelt að muna nafnið?
- Er hætta á að menn rugli nafni listans saman við aðra póstlista?
Athugið að Molar.is mun hafna umsókn ef beðið er um
nafn sem kann að gefa mjög villandi hugmynd um tilgang listans. T.d. myndum
við ekki samþykkja að nota nafnið
"myndavel@molar.is"
yfir póstlista sem fjallar um ostagerð. Þessi vinnuregla er sett til að
auka gagnsemi vefsins (þar sem yfirlit yfir nöfn lista koma fram) og til að
hindra að eftirsótt nöfn verði frátekin að ástæðulausu.
[ yfirlit ]
Ruslpóstur
Hvað er ruslpóstur?
Ruslpóstur (e. spam) er samheiti yfir hverskyns óumbeðinn tölvupóst sem
sendur er á stóra hópa fólks. Ruslpóstur getur verið af ýmsu tagi, t.d. eru
göbb (t.d. lognar vírus-aðvaranir), keðjubréf, auglýsingar og áróður af ýmsu
tagi yfirleitt flokkaðar sem ruslpóstur.
Ruslpóstur er ákaflega óvinsæll, af ýmsum ástæðum. Þar vegur þyngst að
sá sem sendir ruslpóst er að velta stærstum hluta af kostnaðinum við að koma
skilaboðum sínum á framfæri yfir á móttakendur, sem vita ekki hvað þeir eru
að sækja fyrr en það er orðið of seint. Þetta er þveröfugt við
auglýsingarnar sem berast inn um bréfalúgur heimila - þar borgar sendandi
sendingarkostnaðinn og þarf þar að auki að fylgja lögum sem lúta að
fjöldadreifingu pósts.
Netverjar um heim allan hafa sameinast gegn þessum ófögnuði, bæði með
fræðslu og tæknilegum lausnum. Félag
Íslenskra Netverja hefur sett upp síðu um
baráttu gegn
ruslpósti. Það skal tekið fram að það er bannað samkvæmt
notkunarskilmálum ISnet að
senda rafrænan ruslpóst á Íslandi.
[ yfirlit ]
Er hægt að nota molar.is til að senda ruslpóst?
Almenna reglan hér er sú, að þegar póstlisti er stofnaður þá sé hann
tómur, og menn komist ekki á listann nema þeir sjálfir staðfesti skráningu.
Undantekning frá þessari reglu verður gerð þá og því aðeins að hægt sé að
sannfæra umsjónarmenn molar.is um að netföngin séu
ekki illa fengin - og eftir því sem listarnir stækka þá verður erfiðara að
sannfæra okkur!
Um alla lista gildir að menn geta skráð sig af þeim án aðstoðar.
Þetta útilokar í raun að póstlistar séu stofnaðir til þess eins að
senda ruslpóst - því ruslpóstur er samkvæmt skilgreiningu óumbeðinn
póstur, en með því að gerast áskrifandi ert þú að biðja um póstinn - óháð
innihaldi hans.
Þeir sem hafa miklar áhyggjur af misnotkun listanna sem þeir stofna geta
valið að engin bréf berist áskrifendum nema þau hafi verið samþykkt af
umsjónarmanni eða aðstoðarmönnum hans. Til að fara þessa leið þarf að haka
við "Stýrðar umræður" þegar listinn er
stofnaður.
[ yfirlit ]
Eru listarnir varðir gegn ruslpósti? Hvernig?
Póstlistarnir hér eru allir varðir gegn ruslpósti á einfaldan, en þó
áhrifaríkan hátt. Það skal samt tekið fram að slíkar varnir geta þó aldrei
orðið fullkomnar, og molar.is getur ekki ábyrgst
neitt í þessu samhengi.
Listakerfið er stillt þ.a. það tekur ekki á móti bréfum nema það sjáist í
To: eða Cc: línum bréfanna á hvaða lista þau eru send. Mikill meirihluti
ruslpóstsins á netinu er sjálfur sendur gegnum einhverskonar póstlistakerfi,
þar sem netfang móttakandans kemur ekki fram, heldur eitthvað plat eins og
t.d. "Friend@aol.com". Slíkt rusl mun ekki trufla póstlistana.
Þetta fyrirkomulag tryggir einnig að ef ruslpóstur verður vandamál á
einhverjum póstlista, þá mun það sjást í ruslpóstinum sjálfum hvaða lista er
verið að misnota. Þá er hægt að láta umsjónarmann vita eða einfaldlega skrá
sig af listanum.
Listakerfið hafnar einnig bréfum sem stillt eru á mjög mörg netföng
samtímis, ásamt bréfum sem eru yfir 128k (yfir 100000 stafir) að stærð.
Safnkerfið er stillt til að vernda netföng þeirra sem taka þátt í umræðum
á póstlistunum. Netföng sendenda eru aldrei birt á vefsíðum safnsins.
[ yfirlit ]
Tæknimál
Af hverju hverfa viðhengin sem ég sendi?
Og HTML útgáfur bréfanna?
Póstlistakerfið sem er notað á þessum vef er glænýtt og er enn í örri
þróun. Það verður að öllum líkindum með fyrstu póstlistakerfum á markaðinum
sem kann að vinna með flókin MIME skjöl - en sú virkni er enn skammt á veg
komin, og það vantar enn nokkuð uppá til að það meðhöndli viðhengi á
skynsamlegan hátt.
HTML hluti bréfa er fjarlægður úr þeim viljandi, til þess að spara
bandvídd og tryggja að allir móttakendur bréfsins skilji það. Að hafa
bréfin á textaformi einfaldar einnig alla úrvinnslu bréfanna t.d. vegna
safnanna og leita í þeim.
[ yfirlit ]