2013-11-06

Lygin um nauðsyn höfundarréttar

Af og til halda listamenn því fram að án höfundarréttar gæti engin skapandi manneskja lifað af hugverkum sínum. Menn slengja þessu fram sem blákaldri staðreynd.

Sem tölvunarfræðingur, sem lifi af hugverkum mínum, finnst mér þetta í hæsta máta hlægileg fullyrðing. Ég þarf ekki á vernd höfundarréttar að halda, ég fæ borgað fyrir að leysa vandamál fólks. Ég hef reyndar líka grætt á höfundarrétti, en hann var bara eitt af mörgum verkfærum í kassanum þegar ég samdi um kaup og kjör.

Sömueiðis fá margir skemmtikraftar borgað fyrir að skemmta. Til dæmis Sirkus Íslands og leikhúsin. Einnig listamenn sem halda tónleika eða sýningar og selja aðdáendum sínum áþreifanlega minjagripi um upplifunina. Í tískuheiminum er enginn höfundarréttur.

Airwaves hátíðin í Reykjavík malar gull og myndi gera það þó höfundarréttur væri ekki til staðar - hátíðin malar gull fyrir ferðabransann, það er að segja. Ég gæti nefnilega vel trúað að listamennirnir sem spila séu gabbaðir til að vinna mjög ódýrt í skiptum fyrir lottómiða sem byggir á höfundarrétti, sem er vandamál út af fyrir sig.

Aðalatriði er, að það eru mýmargar leiðir til að lifa af hugverkum sínum og vinnu við gerð þeirra, án þess að grípa til höfundarréttar. Það sem höfundarrétturinn færir fólki er fyrst og fremst von um að geta fengið borgað oft fyrir vinnu sem er unnin einusinni.

Og hér kemur róttækasta fullyrðing þessa pistils: Ég á pínu erfitt með að eiga samúð með fólki sem heimtar að fá borgað fyrir að gera ekki neitt, fólki sem vill bara sitja á rassinum og lifa á gömlum afrekum.

Hvort sem um er að ræða uppfinningamanninn með einkaleyfið, auðmanninn sem hirðir arð af stóra fyrirtækinu sínu eða listamanninn sem innheimtir STEF-gjöld... þá finnst mér ekki siðferðislega aðkallandi að vernda þennan möguleika fram í rauðan dauðann.

Mín vegna má hann alveg vera til staðar og hann er sjálfsagt gagnlegur upp að vissu marki. Hvetur til nýsköpunar og svona. En það hljóta að vera takmörk fyrir því hversu langt má ganga í að vernda rétt fólks til að hagnast á fortíðinni, sérstaklega þegar það er vitað að sú vernd mun valda skaða og auknum kostnaði annarsstaðar í samfélaginu.

Í mínum huga er það þetta sem höfundarréttarrifrildið snýst um. Miðaldra popparar vilja fá að skemma Internet okkar allra, svo þeir geti lifað á fornri frægð. Helstu bandamenn þeirra eru kvikmyndaframleiðendur sem vilja hámarka hagnaðinn sinn með því að mismuna viðskiptavinum sínum eftir búsetu - þeir vilja skemma Internetið því það jafnar aðgengi fólks að upplýsingum.

Ég hef litla samúð með málstað þessa fólks. Þannig er það nú bara.

Tags: life


Recent posts

...