2013-04-27

Lögbrot á kjörfundi

Í gær gerðist ég lögbrjótur, alveg óvart: ég birti mynd af atkvæðinu mínu á Facebook. Þetta var ekki hugsað sem uppreisn, heldur var þetta bara viðbragð við merkilegu augnabliki - ég kaus sjálfan mig! Ég hef aldrei áður og mun hugsanlega aldrei aftur geta kosið sjálfan mig. Ég vildi deila augnablikinu með fólkinu mínu.

Svo var mér bent á að þetta væri ólöglegt. Í fyrstu yppti ég bara öxlum; hvað með það? Það er fullt af asnalegum lögum til, hvaða máli skiptir ein skitin mynd af kjörseðli?

En ég faldi færsluna samt skömmu síðar, þegar ég komst næst í net. Fór á kosningavöku, fagnaði og reyndi að halda í bjartsýnina þó að RÚV sýndi Pírata með undir 5% fylgi alla nóttina.

Í morgun vaknaði ég við þær fréttir að við hefðum fengið 5,1% greiddra atkvæða og þrír Píratar væru að fara á þing, meðal annars Helgi Hrafn sem er oddviti á mínum lista. Ég er þá vara-varaþingmaður? Magnað.

Svo fór ég að hugsa um þessa mynd. Ég er það mikill efahyggjumaður og anarkisti í mér, að mér finnst ekkert endilega rangt að gera hluti sem eru bannaðir. En stundum eru hlutir bannaðir af því þeir eru rangir og eftir nokkra umhugsun áttaði ég mig á því að svo er í þessu tilfelli.

Það er mikilvægt að fólk sýni ekki öðrum atkvæðin sín, þetta er ekki einkamál hvers og eins.

Leynd atkvæðisins er ein mikilvægasta stoð lýðræðisins. Án leyndar gætu atvinnuveitendur kúgað starfsfólk sitt til að kjósa "rétt" eða foreldrar skipað börnum sínum fyrir. Án leyndarinnar er hægt að ráða úrslutum kosninga með ofbeldi eða kúgun eða mútum. Þetta skiptir öllu máli.

Ég vil því biðjast afsökunar á að hafa birt atkvæði mitt í gær. Ef ég verð sektaður fyrir það þá mun ég ekkert malda í móinn, gretti mig bara og borga.

En ég ætla samt að birta mynd af kjörseðlinum og fanga augnablikið: því ég er á honum og það er mjög merkilegt!

(Dagsett 27. en skrifað daginn eftir. Afþvíbara.)

Tags: life


Recent posts

...